Skip to main content

Verið velkomin á málþing á vegum Sagnfræðingafélags Íslands í Neskirkju í Reykjavík 24. október klukkan 20.

Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík var kjörin fyrst kvenna á Alþingi í landskjörskosningum árið 1922 af sérstökum kvennalista. Kvenréttindakonur töldu kvennaframboð einu leiðina til að koma konu á þing, því karlar sátu sem fastast í efstu sætunum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna. Ingibjörg sat á Alþingi, eina konan í hópi 42 þingmanna, til ársins 1930.
Á málþinginu verður þessara tímamóta, og Ingibjargar, minnst í fjórum stuttum erindum. Fjallað verður um þingkonuna Ingibjörgu, baráttumál hennar og mótlætið sem hún mætti. Starf hennar og kvennaframboðið verður sett í samhengi við stjórnmálaumhverfi millistríðsáranna, hugmyndir um húsmóðurhlutverkið og kvenleika, en einnig þverþjóðlegt samhengi kvennabaráttunnar, enda Ingibjörg, og íslensk kvennahreyfing í ágætu sambandi við norrænar og þverþjóðlegar kvennahreyfingar. Loks verður fjallað um störf Ingibjargar í Kvennaskólanum í Reykjavík í samhengi við kvennahreyfinguna og þær ástir milli kvenna sem hún fóstraði.

Dagskrá
Íris Ellenberger: Ástmögurinn Ingibjörg. Um kvennaástir, kvennaskóla og kvennahreyfinguna
Í erindinu verður fjallað um ástarbréf tveggja kvenna, Ágústu Ágústsdóttur Ólafsson og
Ingibjargar Guðbrandsdóttur, til Ingibjargar H. Bjarnason í ljósi þess andófsrýmis sem myndaðist
á vettvangi kvennaskóla og kvennahreyfingar aldamótanna 1900 og gerði það að verkum
að sumar konur beindu ástaraugum sínum fyrst og fremst að öðrum konum. Kvennaskólar og
kvennahreyfingin gegndu mikilvægu hlutverki í að móta hinseginleika kvenna í Evrópu og
Norður-Ameríku um aldamótin 1900 og fjallað er um hvernig þetta hlutverk birtist í þeim
bréfum sem finna má í skjalasafni Ingibjargar H. Bjarnason.

©Kristinn Ingvarsson

Ragnheiður Kristjánsdóttir: Broslega óþroskað? Stjórnmálakerfið frá sjónarhóli kvenna.
Fyrir landskjörið 1922 sagði í Kosningablaði kvenna að það væri „broslegt“ í meira lagi að fulltrúar
stjórnmálaflokkanna hefðu ekki leitað „til kvenþjóðarinnar um val á þingmannsefni“. En
möguleikar kvenna til að ná kjöri mörkuðust ekki einungis af karllægum viðhorfum innan
flokkanna. Kjördæmakerfið var konum óhagfellt og það var engin tilviljun að þær buðu fram í
landskjöri, þar sem landið var eitt kjördæmi, en ekki í kjördæmakosningum þar sem kosið var í
einmennings- eða tvímenningskjördæmum. Átök Framsóknar- og Alþýðuflokks um kosninga- og
kjördæmakerfið eru vel þekkt í íslenskri stjórnmálasögu en minna hefur farið fyrir umræðum um
áhrif þess á kvenframbjóðendur.

Kristín Ástgeirsdóttir: Málsvari kvenna eða „besta sverð íhaldsins“? Stjórnmálakonan Ingibjörg H.
Bjarnason Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík sat á þingi frá 1922–1930 fyrst
kvenna en reyndar var þing ekki kallað saman fyrr en í febrúar 1923. Hún var fulltrú kvennalista
sem vann glæstan og óvæntan sigur sem kom stjórnmálaflokkunum verulega á óvart. Árið 1924 varð Ingibjörg einn af stofnendum Íhaldsflokksins við litla hrifningu margra kvenréttindakvenna.
Hvers vegna tók hún þessa ákvörðun? Það skýrði hún ekki en ég hef sett fram kenningar um
það. Ingibjörg sat alls átta þing en hvernig var henni tekið og hvernig leið henni í þingsölum?
Hvaða mál flutti hún og í hvaða umræðum beitti hún sér? Var hún málsvari kvenna eða „besta
sverð íhaldsins“ eins og Jónas frá Hriflu sakaði hana um.

Erla Hulda Halldórsdóttir: Framagjarnar konur og heiðvirðar húsmæður í þverþjóðlegu samhengi
Eftir fyrra stríð tók hin þverþjóðlega kvennahreyfing upp ný baráttumál auk kosningaréttarins,
sem ekki var fenginn alls staðar. Inga Lára Lárusdóttir ritstjóri orðaði það svo í blaði sínu 19. júní
árið 1918 að nú skoðuðu konur „eigi pólitískan kosningarrétt sem takmark, heldur sem meðal til
þess að koma í framkvæmd jafnrétti á öllum þeim sviðum sem lög ná til.“ Sú vegferð reyndist
grýttari en konur gerðu ráð fyrir því rótgrónar hugmyndir um hlutverk og eðli kvenna voru
lífseigar. Það á sannarlega við um Ísland. Í erindinu verður rætt um þverþjóðlegt samhengi þeirra
baráttumála og hugmyndafræði sem íslenskar kvenréttindakonur hrærðust í fyrstu áratugina eftir
að kosningaréttur fékkst 1915. Við sögu koma nýja konan svokallaða, húsmóðirin, kvenleikinn
og feðraveldið.