Skip to main content

Þriðjudaginn 8. apríl flytur Anna Lísa Rúnarsdóttir hádegisfyrirlesturinn Minjar í torfi: hugmyndafræði varðveislu Núpsstaðar. Þjóðminjasafni Íslands hefur verið falið að tryggja varðveislu torfhúsanna á Núpsstað í Fljótshverfi. Í þessu erindi verður kynnt nálgun og hugmyndafræði þessa verkefnis. Fjallað verður um þá alþjóðlegu sáttmála og kröfur heimsminjaskrár sem hafa haft áhrif á verkefnið, en einnig um Núpsstað og hvernig reynt hefur verið að finna hagnýtar lausnir til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkra varðveisluverkefna í dag. Mikil verðmæti felast í þessum menningararfi og mikilvægt að standa vörð um hann.

Anna Lísa Rúnarsdóttir lauk doktorsprófi í mannfræði frá University College London árið 2004. Hún hefur starfað á Þjóðminjasafni Íslands frá 2005, um tíma sem verkefnisstjóri varðveislu Núpsstaðar en er nú sviðstjóri rannsókna- og varðveislusviðs.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.