Skip to main content

Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur flytur erindið Vandræðalegir Víkingar. Ímynd – Arfur – Tilfinningar þriðjudaginn 16. mars kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Fyrir örfáum árum tóku hugtökin „útrás“ og „útrásarvíkingar“ að óma í íslensku samfélagi. Fjölmiðlar, forsetinn og fleiri tóku þau upp á sína arma og gáfu þeim bæði merkingu og þunga. Í erindi sínu mun Katla rýna í þessa tilteknu orðræðu þar sem greina má vinsæla (en stundum vandræðalega) samfléttun þjóðararfs og viðskipta.
Þjóðararfur er vandræðahugtak og það er víkingahugtakið líka. Samtvinnun þeirra í samfélagslegri orðræðu um viðskipti Íslendinga erlendis er því vandmeðfarin – og jafnvel vandræðaleg. Í fyrirlestrinum verður varpað ljósi á hvernig hin óljósa merking þeirra hefur verið nýtt með margvíslegum hætti í gegnum tíðina. Lengi vel var það einkum ferðamanna- og menningararfsiðnaðurinn sem gældi við þá hugmynd að Íslendingar væru afkomendur víkinga, t.d. með sölu „víkingahjálma“ í minjagripaverslunum og áður en menn vissu af var „ekta víkingaþorp“ risið í Hafnarfirði. Einnig má nefna frægðarför víkingaskipsins Íslendings til Vesturheims sem nú má skoða í Víkingaheimum skammt frá Keflavíkurflugvelli.
Íslenskir sagnfræðingar hafa ekki verið á eitt sáttir um þessa „víkingaarfsvæðingu“ og má í því sambandi minnast á ritdeilu um ristastórt víkingasverð sem reisa átti á Melatorgi við enduropnum Þjóðminjasafns Íslands árið 2004. Sagnfræðingar, og aðrir fræðimenn, veittu einnig orðræðunni um hina svokölluðu “útrásarvíkinga” andóf en hlutu lítinn hljómgrunn.
Nú í upphafi 21. aldar, á tímum hnattvæðingar og menningarlegrar fjölbreytni, hljóta vinsældir slíkrar þjóðernisorðræðu þó að vekja nokkra furðu. Hugmyndafræði nýfrjálshyggju og síðkapítalisma hefur á undanförnum árum gegnsýrt íslenskt samfélag og þar með menningarstefnu ríkisins. Leiða má að því líkum að markaðsvæðing þjóðararfsins sé angi af þeirri stefnu.
Erindi Kötlu er hluti af hádegisfyrirlestraröðinni Hvað er dómur sögunnar? og er fundurinn ókeypis og aðgangur öllum opinn.